Velkomin į www.2015.is

Vefsíðan 2015

Vefsíðan www.2015.is var liður í íslenskri upplýsingaherferð sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hrinti af stað vegna 2015–markmiðanna árið 2008. Ástæðan fyrir því var að ein af framtíðarsýnum félagsins er að Félag Sameinuðu þjóðanna sé áhrifamikill vettvangur fyrir öfluga upplýsingagjöf um SÞ. Upplýstur almenningur er nauðsynlegur grunnur að framgangi 2015–markmiðanna. 

Ný þróunarmarkmið eru nú til skoðunar hjá Sameinuðu þjóðunum. Mikil vinna fer fram á heimsvísu um mótun nýrra markmiða sem eiga að taka við af Þúsaldarmarkmiðunum. Hér á síðunni má  finna fréttir, skýrslur og heimasíður tengdar markmiðunum og þeirri vinnu sem fram fer vegna post-2015. 

Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Í september árið 2000, í upphafi nýs árþúsunds, sameinuðust leiðtogar heims í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York á svokölluðum Þúsaldarfundi og samþykktu Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Í yfirlýsingunni var ákveðið að stuðla að bættum hag mannkyns um allan heim á sviði þróunar, fátæktar, öryggis, friðar, umhverfisverndar, mannréttinda og lýðræðis.

Átta markmið voru skilgreind sem eiga að stuðla að mannsæmandi og sjálfbærri framtíð fyrir alla íbúa heims. Markmiðin eru tímasett og á mælanlegur árangur að nást fyrir árið 2015. Ef heldur fram sem horfir munu markmiðin fyrst nást eftir 110 ár.

Jafnvel þótt SÞ hafi sett sér umrædd markmið árið 2000 og þó svo margir vinni eftir þeim þá eru þau ekki kunn meðal almennings. Samkvæmt könnun Eurobarometer, sem gerir reglulega kannanir í ríkjum Evrópusambandsins, vita færri en 10% Evrópubúa hvað felst í markmiðunum. 80% Evrópubúa höfðu ekki svo mikið sem heyrt um 2015–markmiðin árið 2007.

 1. Eyða fátækt og hungri
   
 2. Tryggja að öll börn njóti grunnskólamenntunar
   
 3. Vinna að jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna
   
 4. Lækka dánartíðni barna
   
 5. Vinna að bættu heilsufari kvenna
   
 6. Berjast gegn alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu
   
 7. Vinna að sjálfbærri þróun
   
 8. Styrkja hnattræna samvinnu um þróun